Baldur til liðs við FH

Baldur Sigurðsson tekur í spaðann á sínum nýja þjálfara, Ólafi …
Baldur Sigurðsson tekur í spaðann á sínum nýja þjálfara, Ólafi Kristjánssyni. Ljósmynd/FHingar.net

Knattspyrnumaðurinn Baldur Sigurðsson er orðinn leikmaður FH og hefur skrifað undir samning við félagið sem gildir til eins árs.

Baldur, sem er 34 ára, kemur til FH frá Stjörnunni en þar hafði hann spilað frá árinu 2016. Baldur lék 78 leiki fyrir Stjörnuna í efstu deild og varð bikarmeistari með liðinu í fyrra. Hann lék 18 deildarleiki fyrir liðið í sumar, þar af 14 í byrjunarliði, og skoraði 3 mörk.

Baldur er Mývetningur að upplagi og lék fyrstu ár sín í meistaraflokki með Völsungi á Húsavík. Hann fór þaðan til Keflavíkur og varð bikarmeistari með liðinu árið 2006. Frá Keflavík fór Baldur til Bryne í Noregi en hann gekk svo í raðir KR fyrir tímabilið 2009 og varð tvisvar Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari á sex árum með Vesturbæjarliðinu. Baldur fór frá KR til danska úrvalsdeildarfélagsins SønderjyskE í eitt ár áður en hann kom til Stjörnunnar í ársbyrjun 2016. Hann á að baki 3 A-landsleiki.

Baldur hefur alls leikið 251 leik í efstu deild hér á landi og er ellefti leikjahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert