Alltaf að læra

Arnór Sigurðsson átti fínan leik á hægri kantinum fyrir íslenska …
Arnór Sigurðsson átti fínan leik á hægri kantinum fyrir íslenska liðið. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Við vissum að þetta væri skyldusigur fyrir okkur og við sigldum þessum þremur stigum í hús,“ sagði Arnór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Hauk Harðarson hjá RÚV, eftir 2:1-sigur liðsins gegn Moldóvu í undankeppni EM á Zimbru-vellinum í Chisinau í Moldóvu í kvöld.

„Þetta var kannski ekki alveg jafn öruggt og margir bjuggust við  í kvöld en að sama skapi skorum við tvö mjög góð mörk þar sem við spilum okkur mjög vel í gegnum vörnina hjá þeim og skorum tvö góð mörk. Við vissum það fyrir fram að við þyrftum að sýna ákveðin gæði fram á við til þess að vinna þá því þeir eru mjög þéttir til baka og verjast mjög vel.“

Arnór lenti í samstuði í seinni hálfleik þar sem hann lá óvígur eftir á vellinum en hann kláraði leikinn.

„Þeir mega alveg eiga það að þeir voru helvíti aggressívir en mér fannst við gera vel í að halda haus allan tímann og láta þá ekki fara í taugarnar á okkur. Ég fékk smá högg á ökklann sem ég er búinn að vera í smá vandræðum með að undanförnu en sársaukinn hvarf eftir því sem leið á leikinn.“

Skagamaðurinn fékk tækifæri í byrjunarliðinu í kvöld en hann á að baki átta landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark.

„Ég er alltaf að öðlast meiri og meiri reynslu og ég er að læra að spila með þessum strákum. Ég er fyrst og fremst stoltur af því að vera hluti af þessum hópi og að fá tækifæri til þess að spila fyrir þetta lið,“ sagði Arnór í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert