Frakkar og Tyrkir of sterkir

Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark Íslands í kvöld en hann …
Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark Íslands í kvöld en hann hefur nú skorað 13 landsliðsmörk á sínum ferli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög sáttur með að hafa klárað þetta almennilega og endað á sigri,“ sagði Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Hauk Harðarson hjá RÚV, eftir 2:1-sigur liðsins gegn Moldóvu í undankeppni EM á Zimbru-vellinum í Chisinau í Moldóvu í kvöld.

„Við sýndum mjög flotta spilkafla í báðum mörkunum sem við skoruðum sem er jákvætt. Við vitum að við getum þetta þegar við róum okkur aðeins á boltanum og látum hann ganga. Það sannaði sig í dag og að klára riðilinn með 19 stig er frábært en það dugði ekki til í þetta skiptið. Frakkar og Tyrkir voru einfaldlega of sterkir en við getum borið höfuðið hátt eftir frammistöðu okkar í þessari riðlakeppni.“

Birkir skoraði fyrra mark Íslands í kvöld með laglegu skoti úr teignum en hann hefur nú skorað 13 landsliðsmörk á ferlinum og er sjötti markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi.

„Ég á eitthvað í efstu menn en ég mun halda áfram að gera mitt besta og svo sjáum við til hvar maður endar.“

Ísland er á leiðinni í umspil fyrir lokakeppni EM en leikirnir fara fram í mars á næsta ári.

„Það er mjög gott að fara inn í þessa umspilsleiki í mars með sigur í lokaleiknum í riðlakeppninni á bakinu. Vonandi fáum við þessa stráka til baka sem eru búnir að vera meiddir og tökum þetta af krafti á næsta ári,“ sagði Birkir í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert