Ísland í milliriðil eftir glæsilegan viðsnúning

Ísland tryggði sér sæti í milliriðli með glæsilegum sigri.
Ísland tryggði sér sæti í milliriðli með glæsilegum sigri. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U19 ára landslið karla í fótbolta tryggði sér í dag sæti í milliriðli í undankeppni EM með ótrúlegum 4:2-sigri á Albaníu í lokaumferð undanriðilsins, en leikið var í Belgíu.

Albanía komst í 2:0 í fyrri hálfleik og þannig var staðan í leikhléi. Ísland svaraði hins vegar með fjórum mörkum í seinni hálfleik. 

Marvin Cuni og Angelo Ndrecka skoruðu mörk Albana á sjö mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleik og var staðan ekki góð fyrir íslenska liðið en það hefði getað sloppið áfram með eins marks ósigri, ef Grikkir myndu tapa fyrir Belgum á sama tíma.

Atli Barkarson, leikmaður Fredrikstad í Noregi, minnkaði hins vegar muninn á 51. mínútu og Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Norwich á Englandi, jafnaði metin á 67. mínútu. 

Var það byrjunin á ellefu mínútna kafla þar sem Ísland skoraði þrjú mörk því á 74. mínútu bætti Andri Lucas Guðjohnsen, leikmaður Real Madríd, við marki. Fjórum mínútum síðar skoraði Blikinn Karl Friðleifur Gunnarsson fjórða markið og gulltryggði glæsilegan sigur.

Belgía vann Grikkland 1:0 með marki í uppbótartíma og vann riðilinn með níu stig, eða fullt hús stiga, Ísland hafnaði í öðru sæti með sex, Grikkland í þriðja með þrjú og Albanía endaði án stiga á botninum. 

Dregið verður í milliriðla þann 3. desember og fara þeir fram næsta vor. Sjö efstu liðin í milliriðlunum tryggja sér sæti í lokakeppninni í Norður-Írlandi sem fer fram 19. júlí til 1. ágúst á næsta ári. 

Byrjunarlið Íslands í dag: 

Jökull Andrésson 

Valgeir Valgeirsson

Baldur Hannes Stefánsson

Jón Gísli Eyland Gíslason

Atli Barkarson

Orri Hrafn Kjartansson

Andri Fannar Baldursson

Ísak Bergmann Jóhannesson

Ísak Snær Þorvaldsson

Andri Lucas Guðjohnsen

Kristall Máni Ingason

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert