Landsliðsmaður á leið í Víkina

Ingvar Jónsson verður Víkingur í dag samkvæmt heimildum mbl.is.
Ingvar Jónsson verður Víkingur í dag samkvæmt heimildum mbl.is. AFP

Knattspyrnudeild Víkings Reykjavíkur hefur boðað til blaðamannafundar í Fossvoginum í dag þar sem tveir nýir leikmenn verða kynntir til sögunnar. Samkvæmt heimildum mbl.is eru þetta þeir Ingvar Jónsson markvörður og Atli Barkarson.

Ingvar, sem er þrítugur að aldri, hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár og var í EM-hópi Íslands sem féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Frökkum á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016. Ingvar hefur verið atvinnumaður í Noregi og Danmörku frá árinu 2015 en er nú á heimleið. Hann lék með Njarðvík og Stjörnunni, var í Íslandsmeistarliði Stjörnunnar 2014 en fór eftir það til Start í Noregi, lék síðan með Sandnes og Sandefjord þar í landi og hefur undanfarin tvö ár leikið með Viborg í Danmörku.

Atli er einungis 18 ára gamall en hann hefur leikið með unglingaliði Norwich undanfarin tvö ár og spilaði með Fredrikstad í norsku C-deildinni síðustu vikur tímabilsins 2019. Hann er uppalinn á Húsavík hjá Völsungi og þá á hann að baki 24 leiki með yngri landsliðum Íslands. Atli verður 19 ára gamall í mars.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, hefur verið duglegur að fá til sín unga og efnilega stráka frá því hann tók við liðinu fyrir síðasta tímabil. Víkingar urðu bikarmeistarar á síðustu leiktíð og þá endaði liðið í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar með 28 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert