Fengu færanýtinguna í bakið

Hallbera Guðný Gísladóttir, Magdalena Anna Reimus, Tiffany McCarty og Lillý …
Hallbera Guðný Gísladóttir, Magdalena Anna Reimus, Tiffany McCarty og Lillý Rut Viðarsdóttir í leiknum á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

„Ég er fyrst og fremst svekktur með að tapa þessum leik,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1- tap liðsins gegn Selfossi í Meistarakeppni kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

Elín Metta Jensen kom Valskonum yfir á 37. mínútu áður en Tiffany McCarthy jafnaði metin fyrir Selfiss í upphafi síðari hálfleiks. Það var svo Anna María Friðgeirsdóttir sem skoraði sigurmark leiksins með skoti af 30 metra færi á 80. mínútu.

„Við fengum nóg af færum til þess að klára leikinn, bæði í fyrri hálfleik og seinni hálfleik. Það er hins vegar þannig í fótbolta að ef þú nýtir ekki færin þín þá geturðu fengið það í bakið og það er það sem gerðist hjá okkur í dag. Það var margt gott í þessu í dag og líka margt slæmt eins og gengur og gerist.“

Valskonur eru ríkjandi Íslandsmeistarar en liðið hefur titilvörn sína í deildinni gegn KR þann 12. júní næstkomandi á Hlíðarenda.

„Fyrsti deildarleikurinn er eftir tæpa viku og hann skiptir öllu máli. Þessi leikur í dag var fyrst og fremst góður undirbúningur fyrir Íslandsmótið en auðvitað vildum vinna hann,“ bætti Pétur við í samtali við mbl.is.

Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals.
Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert