Mikilvægt að fá mikið út úr landsliðsmönnunum

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, tekur við bikarnum í leikslok.
Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, tekur við bikarnum í leikslok. mbl.is/Sigurður Unnar

Ég er mjög ánægður með frammistöðu liðsins í dag, sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Val í Meistarakeppni kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

„Það var ótrúlega gaman að sjá vinnuframlagið í liðinu og það var það sem að skóp sigurinn fyrst og fremst. Við fórum vel yfir þá hluti sem hefðu mátt fara betur fara í fyrri hálfleik í leikhléi og mér fannst við koma út á völlinn í síðari hálfleik og gera virkilega vel. Þetta var ekki fullkominn leikur af okkar hálfu og við eigum aðeins eftir að samstilla liðið betur en ég er mjög sáttur með sigurinn og að fá bikar. Þetta er nýtt fyrir okkur og við ætlum að trekkja þessa bikarhefð inn á Selfossi.“

Landsliðskonurnar Anna Björk Kristjánsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir áttu báðar mjög góðan leik í liði Selfyssinga en þjálfarinn var afar ánægður með liðsheildina í dag.

„Styrkurinn og úthaldið í liðinu kom mér skemmtilega á óvart. Við vorum að pressa þær framarlega og leikmenn virtust finna lítið fyrir því sem er frábært. Bæði Anna og Dagný eru hingað komnar til þess að láta okkar leikmönnum líða betur á vellinum og það gerðu þær í dag. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að við fáum eins mikið út úr þeim og hægt er,“ bætti Alfreð við í samtali við mbl.is.

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert