Þrjú lið jöfn að stigum í botnbaráttunni

Magni vann afar mikilvægan sigur á Þrótti í kvöld.
Magni vann afar mikilvægan sigur á Þrótti í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Magni vann í kvöld afar dýrmætan sigur á Þrótti Reykjavík á útivelli í Lengjudeildinni í fótbolta, 1. deild, 1:0. Eru bæði lið nú með tólf stig, eins og Leiknir Fáskrúðsfirði og í harðri fallbaráttu. 

Alexander Ívan Bjarnason skoraði sigurmark Magna beint úr aukaspyrnu strax á fyrstu mínútu leiksins. Þróttarar fengu sín færi til að jafna, en það tókst ekki og norðanmenn fögnuðu sætum sigri. Fékk Gunnlaugur Hlynur Birgisson hjá Þrótti beint rautt spjald fyrir mótmæli á 59. mínútu. 

Magni á eftir heimaleiki gegn Þór og Vestra og útileik gegn Keflavík. Þróttur á eftir að mæta Fram og Aftureldingu á útivelli og Víkingi Ó. á heimavelli og Leiknir Fáskrúðsfirði mætir Keflavík, ÍBV og Grindavík í þremur síðustu leikjum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert