Meira en EM í húfi í Búdapest

Landsliðið. Ísland á fyrir höndum þrjá leiki í nóvembermánuði, úrslitaleikinn …
Landsliðið. Ísland á fyrir höndum þrjá leiki í nóvembermánuði, úrslitaleikinn við Ungverja og Þjóðadeildarleiki í Danmörku og Englandi mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrslitaleikurinn við Ungverja um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í fótbolta nálgast dag frá degi. Nú eru aðeins nítján dagar þar til flautað verður til leiks í Búdapest, fimmtudagskvöldið 12. nóvember.

Með sigri þar kemst Ísland á EM 2021, og mun þá einmitt spila tvo af þremur leikjum sínum, gegn Portúgal og Frakklandi, á Puskás-leikvanginum í Búdapest næsta sumar.

En sigur á Ungverjum í þessum úrslitaleik getur orðið íslenska landsliðinu dýrmætur á annan hátt. Eftir landsleiki nóvembermánaðar, þar sem Ísland leikur einnig við Danmörku og England í Þjóðadeild UEFA, verður gefinn út nýr styrkleikalisti hjá FIFA, eins og gert er að jafnaði í hverjum mánuði. Þessi styrkleikalisti mun þó skipta meira máli en aðrir því samkvæmt honum verður raðað í styrkleikaflokka áður en dregið verður í riðla fyrir heimsmeistaramótið 2022 en lokakeppni þess fer fram í Katar í desembermánuði það ár.

Riðladrátturinn fer fram mánudaginn 7. desember, og það er heimslistinn sem gefinn verður út 26. nóvember sem farið verður eftir.

Dregið verður í tíu riðla og því verða tíu lið í hverjum styrkleikaflokki.

Ísland er sem stendur í 22. sæti Evrópuþjóða á heimslista FIFA og yrði því lið númer tvö í þriðja styrkleikaflokki ef nýi listinn sem birtur var fyrr í þessari viku myndi ráða.

En það er næsti listi sem ræður og þegar stigatala þjóðanna er skoðuð sést að Ísland er örskammt á eftir Írlandi, sem er í 20. sæti og myndi því sleppa inn í annan styrkleikaflokk eins og staðan er núna. Á milli er lið Slóvakíu og þetta gæti orðið harður slagur um að ná þessu 20. sæti. Rétt á eftir Íslandi koma síðan Norður-Írland, Noregur, Rúmenía, Skotland, Tékkland og Ungverjaland sem öll gætu gert tilkall til 20. sætisins með góðum árangri í nóvemberleikjunum þremur.

Fréttaskýringin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert