Magnamenn styðja ákvörðun Vesturbæinga

Úr leik Þróttar og Magna í 1. deildinni í sumar.
Úr leik Þróttar og Magna í 1. deildinni í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjórn íþróttafélagsins Magna á Grenivík hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðunar KSÍ um að hætta keppni á Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 2020.

Magni var i harðri fallbaráttu í 1. deild karla þegar ákveðið var að aflýsa mótinu en liðið var með 12 stig í ellefta sæti deildarinnar, líkt og Þróttur úr Reykjavík og Leiknir  frá Fáskrúðsfirði.

Magni var hins vegar með lakari markatölu en Þróttarar, eða einu marki lakara, og því halda Þróttarar sér uppi á kostnað Magnamanna.

„Stjórn Magna lýsir yfir stuðningi við þann málflutning og málatilbúnað sem stjórn knattspyrnudeildar KR hefur haft uppi undanfarna daga og styður ennfremur þá ákvörðun KR að vísa ákvörðun stjórnar KSÍ til áfrýjunardómstóls sambandsins,“ segir ennfremur í tilkynningu frá Magnamönnum.

Yfirlýsing Magna:

Stjórn Íþróttafélagsins Magna á Grenivík harmar þá ákvörðun stjórnar KSÍ, dags. 30. október 2020, að hætta keppni í Íslandsmótum-og bikarkeppni KSÍ.

Að mati stjórnar Magna hefur stjórn KSÍ ekki haft heildarhagsmuni íslenskrar knattspyrnu í huga, sem henni þó ber, og ákvörðunin því sem slík andstæð hlutverki stjórnar KSÍ.

Stjórn Magna lýsir yfir stuðningi við þann málflutning og málatilbúnað sem stjórn knattspyrnudeildar KR hefur haft uppi undanfarna daga og styður ennfremur þá ákvörðun KR að vísa ákvörðun stjórnar KSÍ til áfrýjunardómstóls sambandsins. Líkt og KR, telur Magni verulegan vafa leika á því hvort ákvörðun stjórnar KSÍ standist lög sambandsins og leyfir séað vona að áfrýjunardómstóll sambandsins felli ákvörðunina úr gildi.

Stjórn Íþróttafélagsins Magna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert