Reynslubolti í markið hjá HK

Björk Björnsdóttir er komin í HK.
Björk Björnsdóttir er komin í HK. Ljósmynd/HK

Knattspyrnukonan Björk Björnsdóttir hefur gert samning við HK og mun hún leika með liðinu á komandi tímabili. Björk er 31 árs markvörður sem hefur leikið með Fylki, Val, HK/Víkingi og Avaldsnes í Noregi.

Þá hefur Ester Lilja Harðardóttir gert samning við HK en hún er sem stendur í háskóla í Bandaríkjunum og kemur til HK í vor, en hún lék síðast með Þrótti hér á landi. Bryndís Gréta Björgvinsdóttir hefur svo framlengt samning sinn við HK, en hún lék alla leiki liðsins er það endaði í 2. sæti í 2. deild í fyrra og tryggði sér keppnisrétt í 1. deild.

„Björk er mjög góður markvörður með mikla reynslu sem á eftir að reynast okkar unga og efnilega hópi ómetanleg innan sem utan vallar. Hún er mikill leiðtogi og ekki síður góður markvörður. Okkur hlakkar virkilega til að vinna með henni í komandi verkefnum en hún hefur verið frá í nokkurn tíma. Við væntum mikils af henni á komandi tímabili,“ er haft eftir Jakobi Leó Bjarnasyni þjálfari HK á heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert