Orðinn leikjahæstur í Fossvogi

Halldór Smári Sigurðsson er orðinn leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Víkings …
Halldór Smári Sigurðsson er orðinn leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Víkings í Reykjavík. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Halldór Smári Sigurðsson varð í kvöld leikjahæsti leikmaðurinn í sögu meistaraflokks karla í fótbolta hjá Víkingi í Reykjavík. Hann bætti met Magnúsar Þorvaldssonar sem lék 351 leik fyrir félagið. 

Leikurinn gegn Kórdrengjum í Lengjubikarnum í kvöld er 352. leikurinn sem Halldór spilar fyrir uppeldisfélagið sitt.

Af leikjunum 352 hafa 138 komið í efstu deild, 79 í B-deild, 35 í bikar, einn í meistarakeppni KSÍ og tveir í Evrópukeppnum. Þá hefur hann leikið 61 leik í deildabikar og 37 leiki í öðrum keppnum.

Halldór, sem er varnarmaður, hefur enn ekki skorað mark í deildarleik, en hann á tíu mörk í leikjunum 352, þar af þrjú í bikarkeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert