Vonsvikinn - þörf á hörðum ákvörðunum

Viðar Halldórsson er formaður FH.
Viðar Halldórsson er formaður FH.

Viðar Halldórsson, formaður FH, er vonsvikinn yfir því að engin breyting skuli hafa verið gerð á keppnisfyrirkomulagi efstu deildar karla í fótbolta á ársþingi KSÍ um helgina.

Tillaga Fram um að fjölga liðum í deildinni úr tólf í fjórtán fékk um 58 prósent atkvæða og tillaga starfshóps KSÍ og ÍTF um að leika áfram með tólf lið en bæta við fimm umferðum í úrslitakeppni innbyrðis milli sex efstu og sex neðstu liða, fékk um 54 prósent atkvæða.

Samkvæmt reglugerð KSÍ þarf slík tillaga að fá tvo þriðju hluta atkvæða eða 67 prósent, til að verða samþykkt og því verður óbreytt keppnisfyrirkomulag á deildinni árið 2022.

„Því er nú verr og miður, þá verður þetta óbreytt frá og með 2022. Menn þurfa þá að halda áfram og finna lausn og leiðir. Þetta kom mér svolítið á óvart," sagði Viðar í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag.

„Það má segja að maður sé frekar vonsvikinn að við skyldum ekki hafa náð því að ákveða að fjölga leikjum árið 2022. Svona ákvörðun þarf að taka á ársþingi og næsta þing er ekki fyrr en eftir ár, í febrúar 2022. Aðstæður á Íslandi hafa sem betur fer lagast mikið á síðustu árum og áratugum og það er gerlegt að spila 26-28 leiki í deild," sagði Viðar enn fremur og kvaðst ekki hlynntur tillögu Fram þar sem það myndi minnka gæði leikjanna í deildinni að fjölga liðum úr tólf í fjórtán.

„Það að hugsa stórt þýðir ekki endilega að stíga ofan á aðra eða gera lítið úr þeim. Það er frábært starf alls staðar og á þessu þingi vildi þannig til að vinir mínir í Fram og Akranesi töluðu á móti minni skoðun. Það er allt í lagi, þetta er þeirra skoðun og ekkert við því að segja og hún á rétt á sér þó að ég sé ekki sammála henni.

En það má segja að kannski það versta sem gerðist á þinginu, og 90-95 prósent eru líklega sammála því, er að við áttum möguleika á að fjölga leikjum, ekki bara í Pepsideild karla, líka í Lengjudeild karla, en út af þessari umræðu sem fór af stað um fjölgun var ekki einu sinni samþykktur óbreyttur fjöldi liða. Það féll og ég skil það ekki," sagði Viðar.

Líka hótanir í hina áttina

Viðar var í þættinum spurður út í umfjöllun dv.is um framgöngu hans á þinginu og mögulegar hótanir hans um að „stærri félögin“ þyrftu jafnvel að grípa til aðgerða.

„Ég held að þetta þing hafi sýnt okkur það að íþróttahreyfingin almennt, allavega knattspyrnuhreyfingin, er komin í ákveðna stöðu þar sem þarf að fara að taka harðar ákvarðanir. 

Hlutirnir hafa breyst á liðnum árum og áratugum á þann veg að hluti af þessari íþrótt er afreksmiðaðri en áður, meiri peningar í húfi, þetta er orðin atvinnugrein. Það er verið að greiða mikið af launum. Við erum komnir með ákveðinn fjölda félaga sem starfa ekki lengur eins og gamla ungmennafélagshreyfingin. Í þeim hluta sem þetta er orðin atvinnugrein, þarf sá hluti að fá meiru um það ráðið hvernig sú starfsemi þarf að fara fram. Það sýndi sig vel á þessu ágæta þingi á laugardaginn.

Það er ágætisfólk alls staðar í hreyfingunni, hvort sem það telur sig lítið eða stórt, en þarna ræður þessi atvinnugrein sér ekki sjálf. Stór hópur fólks fyrir utan hana tekur ákvarðanirnar eins og gerðist á þinginu um helgina.

Það má alveg kalla þetta hótun en það vill þannig til að það voru hótanir í hina áttina fyrir þingið. Um það að draga til baka tillögu, ef þeir fengju t.d. 30 prósent af sjónvarpsrétti. Frá liðum sem í þeirra hugarheimi telja sig minni. Þau voru með þessa nettu hótun í loftinu. Ég kalla ekki hótun að segjast ætla að nýta rétt sinn," sagði Viðar en viðtalið við hann má heyra í heild sinni í hlaðvarpsþættinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert