Það eina sem skiptir máli

Elín Metta Jensen í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld.
Elín Metta Jensen í baráttunni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta snérist fyrst og fremst um að vinna leikinn en við vorum ekki góðar í kvöld, það er alveg ljóst,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Stjörnunni í 1. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Það sem ég tek jákvætt með mér úr þessum leik eru stigin þrjú og það að við stóðum saman í því sem við vorum að gera. Stundum gengur fótboltinn vel og stundum ekki og í dag gekk hann ekki vel, ekki fótboltalega séð allavega.

Það eina sem ég er að hugsa um er að við þurfum að bæta okkur fyrir næsta leik, það er alveg ljóst. Við þurfum að bæta ansi mikið, 80% af því sem við höfum verið að gera. Þessar sendingar sem við erum vanar að vera góðar í voru að klikka í dag og það skapaði fleiri tækifæri fyrir þær en okkur.

Að sama skapi er alltaf gott að vinna leiki sem þú spilar ekki vel í,“ sagði Pétur.

Betsy Hasset sækir að Ídu Marín Hermannsdóttur.
Betsy Hasset sækir að Ídu Marín Hermannsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Sáttur með hópinn

Valsliðið var ólíkt sjálfu sér í kvöld en Pétur er þrátt fyrir það ánægður með stöðuna á leikmannahópnum.

„Fremstu þrír, miðjan, vörnin, það var allt einhvernvegin ekki alveg eins og við vildum gera þetta. Við erum búnar að vera tæpar síðustu fjórar vikur en í dag er ég sáttur með standið á hópnum og formið á leikmönnum liðsins.“

Þjálfari Fylkis, Kjartan Stefánsson, biðlaði til Breiðabliks og Vals í gær um að þau myndi ekki skora níu til tíu mörk á hin liðin í deildinni í leikjum sumarsins en aðspurður segist Pétur ekki hafa tekið ummælin sérstaklega til sín.

„Við spilum okkar leik og reynum að ná í þrjú stig, annað skiptir engu máli eins og staðan er núna,“ bætti Pétur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert