„Gerðum okkur erfitt fyrir“

Skagamenn ræða við Pétur Guðmundsson dómara á upphafsmínútunni og Víkingar …
Skagamenn ræða við Pétur Guðmundsson dómara á upphafsmínútunni og Víkingar sjást fagna. Óttar er með höndina á lofti. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Óttar Bjarni Guðmundsson, miðvörður ÍA, sagðist vera nokkuð sáttur við stig gegn Víkingi þegar mbl.is ræddi við hann en ÍA var 0:1 undir í 89 mínútur í kvöld.

„Ég held að við getum verið sáttir við stig úr því sem komið var. Við gerðum okkur erfitt fyrir með því að fá á okkur mark eftir 50 sekúndur. Veðrið og vallaraðstæður buðu ekki upp á neinn sambabolta. Ég er því bara ánægður með að við skyldum ná að troða inn marki í restina. Á heildina litið fannst mér við vera betri í síðari hálfleik,“ sagði Óttar og spurður nánar út í völlinn þá sagði hann völlinn vera það harðan að erfitt væri að reikna út hvert boltinn færi. 

„Þú þarft að vera með 100% einbeitingu þegar boltinn kemur til þín því þú veist ekkert hvert hann fer. Þetta ýtir bara undir frekari gervigrasvæðingu að mínu mati.“

Nokkrir Skagamenn virtust biðja um að mark Víkings yrði dæmt af. Spurður út í það sagðist Óttar ekki geta dæmt um hvort markið hefði átt að standa. „Við fyrstu sýn fannst mér Helgi vera rangstæður þegar hann skoraði en ég get ekki fullyrt um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert