Maður er alltaf með lífið í lúkunum

Kári Árnason átti góðan leik í kvöld.
Kári Árnason átti góðan leik í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var hörkuleikur og örugglega skemmtilegt að horfa á þetta og pottþétt skemmtilegra en á Skipaskaga í 13 vindstigum og lágri sól,“ sagði Kári Árnason, miðvörður Víkings í Reykjavík, eftir 3:2-sigur liðsins á Stjörnunni í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Kári var sáttur við spilamennsku Víkingsliðsins og bendir á að Stjarnan hafi ekki skapað sér mörg færi fyrir utan mörkin tvö sem Garðbæingar skoruðu. 

„Það var jafnræði með liðunum en mér fannst við eiga skilið að vinna þetta á endanum. Mér fannst frammistaðan okkar góð. Við sköpuðum slatta af færum þótt pressan okkar var ekki alveg nógu góð, það getur gerst í lok leikja. Ef við tökum heildarmyndina leit þetta vel út. Þessi mörk sem við fengum á okkur voru klaufaleg þótt þetta hafi verið svakalegt skot hjá stráknum. Þeir sköpuðu ekki mikla hættu inn í teig hjá okkur. 

Stjarnan sótti nokkuð í stöðunni 3:2 í seinni hálfleik og Kári, sem er uppalinn Víkingur, viðurkennir að það sé óþægilegt að vera einu marki yfir og hitt liðið í sókn. 

„Mér líður aldrei vel í stöðunni 3:2 en það er eins og það er. Maður er alltaf með lífið í lúkunum, sérstaklega þegar maður spilar fyrir Víkinga eða landsliðið. Þetta er ekki eins „stress free“ og fyrir klúbba sem þér er kannski meira sama um.“

Kári hafði nóg að gera í seinni hálfleik og skallaði boltann í burtu hvað eftir annað. „Við Sölvi höfum talað um það í mörg ár að við erum hræddir um að fá heilabilun þegar við erum orðnir 45 ára. Við erum að reyna að minnka þetta en við verðum að skalla þetta í burtu þegar það kemur.“

Víkingur vann 1:0-sigur á Keflavík í 1. umferð en þurfti að sætta sig við 1:1-jafntefli á móti ÍA í 2. umferð þar sem Skagamenn jöfnuðu í blálokin. „Það er pirrandi að vera ekki með fullt hús stiga eftir Skagaleikinn en það var ekki fótboltaleikur heldur eitthvað allt annað. Bæði lið geta unað við eitt stig þar. Sjö stig eru mjög góð byrjun,“ sagði Kári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert