Maður býr til sína eigin heppni

Leiknismenn fagna í kvöld.
Leiknismenn fagna í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

„Mér líður frábærlega, þetta var geggjað,“ sagði Brynjar Hlöðversson, besti maður vallarins í 3:0-sigri Leiknis úr Reykjavík á Fylki í Pepsi Max-deildinni í fótbolta, í samtali við mbl.is. Brynjar lék eins og klettur í vörn Leiknismanna og hann var kátur í leikslok. 

„Frammistaðan var mjög góð, það segir sig sjálft þegar maður vinnur 3:0 en við getum betur og Fylkismenn líka. Völlurinn var erfiður og það var mikið af tæknimistökum hjá báðum liðum. Þetta féll með okkur og ég tek því.“

Daði Ólafsson fékk dauðafæri fyrir Fylki í stöðunni 1:0 í seinni hálfleik en þar fyrir utan fengu gestirnir fá færi. „Mér leið mjög vel fyrir utan þetta dauðafæri þegar boltinn fór í gegnum alla. Hann kemur á fleygiferð á mig og ég verð að sleppa honum því annars er bara víti. Þá vorum við sofandi á verðinum. Gyrðir skoraði svo með glæsilegum skalla og pressan fór af manni.“

Leiknismaðurinn segir frammistöðuna í kvöld ekki endilega betri en í fyrstu tveimur leikjunum þar sem liðið gerði jafntefli við Breiðablik og Stjörnuna. „Ég spilaði fyrstu tvo og þetta féll betur með okkur núna. Við hefðum getað unnið fyrstu tvo en við klúðruðum því svolítið. Við sigldum þessu heim. Stundum fellur þetta með manni og stundum ekki. Maður býr til sína eigin heppni,“ sagði Brynjar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert