Valur mætir Dinamo Zagreb

Birkir Már Sævarsson og liðsfélagar hans í Val mæta Dinamo …
Birkir Már Sævarsson og liðsfélagar hans í Val mæta Dinamo Zagreb í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar

Íslandsmeistarar Vals munu mæta króatísku meisturunum í Dinamo Zagreb í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla. Dregið var í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss rétt í þessu.

Fyrri leikur liðanna mun fara fram í Zagreb og síðari leikurinn fer fram á Origo-vellinum á Hlíðarenda.

Valur gat aðeins mætt Dinamo Zagreb, Zalgiris Vilníus frá Litháen, Ferencváros frá Ungverjalandi og Flora Tallinn frá Eistlandi, og því ljóst að Íslandsmeistararnir fengu sterkasta mögulega andstæðinginn.

Tapi Valsmenn fyrir Dinamo Zagreb fara þeir í aðra umferð nýju Sambandsdeildar Evrópu.

Króatísku meistararnir hafa verið tíðir gestir í riðlakeppni Meistaradeildarinnar undanfarin ár og náðu sínum besta árangri í Evrópudeildinni á síðasta ári þegar liðið komst alla leið í átta-liða úrslit keppninnar með því að slá Tottenham Hotspur út í 16-liða úrslitum.

Alls hefur Dinamo Zagreb komist fimm sinnum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, þar af þrisvar sinnum á síðustu sex árum, þó liðinu hafi ekki tekist að komast upp úr riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert