„Drullustressaður og spenntur“

Þorsteinn Halldórsson á hliðarlínunni í kvöld.
Þorsteinn Halldórsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var frábær upplifun og virkilega gaman,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í kvöld.

Þorsteinn var að stýra sínum fyrsta keppnisleik á Laugardalsvelli í kvöld gegn Hollandi í undankeppni HM, eftir að hafa verið ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins í janúar á þessu ár, en leiknum lauk með 2:0-sigri Hollands.

„Ég var drullustressaður og spenntur en maður nýtur þess auðvitað bara að vera í þessari stöðu,“ sagði Þorsteinn.

„Ég hef alltaf sagt það að um leið og maður hættir að vera bæði stressaður og spenntur fyrir leiki þá hætti ég að þjálfa.

Það er frábær tilfinning að vera drepast úr stressi fyrir svona leiki og fílingurinn sem fylgir því. Án hans hefði maður ekki viljað taka þátt í þessu,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert