„Ætlum að skora eins mikið og við getum“

Sveindís Jane Jónsdóttir og Dominique Janssen í leik Íslands og …
Sveindís Jane Jónsdóttir og Dominique Janssen í leik Íslands og Hollands í undankeppni HM 2023 í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveindís Jane Jónsdóttir, sóknarkona íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir að liðið ætli sér að nýta leikinn gegn Kýpur í undankeppni HM 2023 til þess að bæta markatölu sína í C-riðlinum.

„Við byrjuðum bara að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Kýpur í dag. Við ætlum að sækja vel á þær og skora eins mikið og við getum.

Það er eiginlega bara planið. Svo ætlum við að verjast líka auðvitað en við ætlum að skerpa aðeins á sóknarleiknum,“ sagði Sveindís Jane á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í gær.

Kýpur er lægst skrifaða lið riðilsins og hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum gegn Hollandi og Tékklandi með sömu markatölu, 0:8.

Sveindís Jane var því spurð hvort það væri ekki lag að nota leikinn á þriðjudagskvöld til þess að freista þess að vera með sem besta markatölu að loknum yfirstandandi landsleikjaglugga.

„Jú við ætlum bara að gera eins og hin tvö liðin sem hafa skorað átta mörk á þær, eða fleiri bara. Þetta er akkúrat svona leikur þar sem við viljum koma markatölunni aðeins upp og skora eins og við getum. Þá ætti þetta að líta mjög vel út fyrir okkur,“ sagði hún.

Leikur Íslands og Kýpur fer fram á Laugardalsvellinum annað kvöld, þriðjudagskvöld, klukkan 18.45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert