Hafa sett sig í samband við lögreglu

Mál Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar eru til …
Mál Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar eru til rannsóknar hjá lögreglu. mbl.is/Golli

Engin skýrslutaka hefur farið fram í máli knattspyrnumannanna Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar. Þetta staðfesti lögmaður Eggerts Gunnþórs í samtali við mbl.is í dag.

Leikmennirnir hafa báðir verið sakaðir um kynferðisbrot sem á að hafa átt sér stað eftir verkefni íslenska karlalandsliðsins í Kaupmannahöfn árið 2010.

Málið vakti fyrst athygli í maí á þessu ári þegar meintur brotaþoli deildi upplifun sinni af meintri nauðgun á samfélagsmiðlum en RÚV greindi frá því í lok september að rannsókn í máli Arons og Eggerts hefði verið tekin upp að nýju.

„Skjólstæðingur minn vill að sjálfsögðu fá að svara fyrir þessar ásakanir en hvenær það verður er erfitt að segja til um,“ sagði lögmaður Eggerts í samtali við mbl.is.

„Málið er til rannsóknar hjá lögreglu en ég geri ráð fyrir því að það fari fram einhver skýrslutaka í nóvember án þess þó að ég geti svarað nákvæmlega fyrir það.

Við erum að reyna að ýta þessu áfram og höfum sett okkur í samband við lögreglu þar sem kallað hefur verið eftir því að skjólstæðingur minn fái að gefa skýrslu.

Þeir neita báðir sök eins og kom fram í yfirlýsingum þeirra beggja og það er erfitt fyrir þá að tjá sig frekar um þetta mál fyrr en þeir eru búnir að ræða við lögreglu,“ bætti lögmaður Eggerts við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert