KA öryggið uppmálað í 3:0 sigri á FH

Gunnar Nielsen í marki FH í baráttunni við Sveinn Margeir …
Gunnar Nielsen í marki FH í baráttunni við Sveinn Margeir Hauksson í kvöld. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Skynsemi og yfirvegun einkenndi leik KA-manna þegar þeir sóttu FH heim í Hafnarfjörðinn í dag þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni, og áttu ekki í miklum vandræðum með að landa 3:0 sigri.

Leikurinn fór frekar rólega af stað en skemmtilegt að sjá sóknarmenn pressa stíft og koma jafnvel markvörðum í vandræði en fyrsta færið var Hafnfirðinga á 13. mínútu þegar Vuk Oskar Dimitrijevic átti fast skot úr miðjum vítateig hægra megin en Kristijan Jajalo í marki KA varði niður við stöng og í horn.

Á 20. mínútu kom síðan færi KA þegar Daníel Hafsteinsson náði að skjóta en ekki í góðu jafnvægi og boltinn í hendur Gunnars í markinu.  Svo kom fyrsta markið þegar KA-menn áttu góða sókn upp vinstri kantinn, smelltu boltanum yfir vörn FH á Nökkva Þey  Þórisson sem var að komast í skotfæri um miðjan vítateig vinstra megin en þar mætti markamaskína Hallgrímur Mar Steingrímsson og þrumaði boltanum einfaldlega hægra megin í markið á 25. mínútu. FH tók aðeins við sér en fljótlega voru gestirnir að norðan farnir að ná tökum á leiknum og á 38. mínútu felldi Guðmundur Kristjánsson varnarmaður FH Elfar Árna Aðalsteinsson upp við endalínu svo dæmt var víti, sem Nökkvi Þeyr skoraði úr af öryggi, staðan 0:2.

Hafnfirðingarnir mættu sprækari til síðari hálfleiks, sóttu stíft en gekk sem fyrr erfiðlega að troða sér í gegnum þétta vörn KA. Akureyringar reyndu svo eftir korter eða svo að ná undirtökunum en tókst ekki því FH-ingar voru enn einbeittir. Liðin fengu síðan sæmileg færi, Oliver og Vuk hjá FH þegar Kristijan í marki KA varði en hjá KA Nökkvi og Ívar en mörkin biðu. Þegar leið á leikinn herti FH á sóknum sínum en það býður hættunni heim, KA fékk skyndisókn þrír á móti þremur og lauk henni með að Bryan Van Den Bogaert skilaði sending Nökkva Þeys í markið úr miðjum vítateig, staðan 0:3 á 88. mínútu.

FH-ingar virtust undir pressu, hvort sem það var frá sjálfum sér eða öðrum, og sóttu en Norðanmenn voru algerlega viðbúnir, pressuðu fremst en stukku síðan í vörnina og héldu varnarlínunni rétt utan vítateigs, skildu einn mann eftir frammi en voru líka snöggir til að aðstoða. 

FH 0:3 KA opna loka
90. mín. Davíð Snær Jóhannsson (FH) á skot framhjá Utan teigs og fast en hátt yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert