Atli fór hamförum í stórsigri KR

Atli Sigurjónsson skoraði þrennu.
Atli Sigurjónsson skoraði þrennu. mbl.is/Árni Sæberg

Atli Sigurjónsson átti stórleik er KR vann sterkan 4:0 sigur á ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í dag. 

Bæði lið höfðu verið í fínu formi fyrir leikinn í dag og því stefndi í áhugaverða viðureign. 

KR komst yfir þegar aðeins níu mínútur voru liðnar af leiknum. Þá fékk Aron Kristófer Lárusson boltann frá Theodóri Elmari Bjarnasyni og hljóp upp vinstri vænginn glæsilega. Hann sendi boltann svo þvert fyrir á Sigurð Bjart Hallsson sem setti potaði boltanum í netið, 1:0 og heimamenn komnir yfir. 

Næstu 28 mínúturnar fengu bæði lið fínustu færi og ekki síst Eyjamenn, það var svo Atli Sigurjónsson sem kom KR-ingum í 2:0. 

Þá fékk hann boltann á hægri kantinum frá Aroni Þórði Albertssyni og fékk allan tímann í heiminum til að skjóta utan teigs, hann lét bara vaða og inn fór boltinn. Slappur varnarleikur hjá Eyjamönnum og spurning hvort að Guðjón Orri hefði getað gert betur í markinu. 

Fleiri urðu færin, en mörkin ekki í fyrri hálfleiknum og það voru því heimamenn sem leiddu 2:0 er liðin gengu til búningsklefa. 

Atli var svo aftur á skotskónum þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þá fékk hann aftur boltann frá Aroni Þórði, lék á varnarmann og setti hann laglega framhjá Guðjóni Erni í fjærhornið, 3:0 og KR-ingar komnir í ansi þægilega stöðu. 

Atli fullkomnaði svo þrennu sína á 87. mínútu. Þá fékk hann boltann frá Theodóri Elmari Bjarnasyni og lék á varnarmann Eyjamanna áður en hann lagði boltann í fjær. 4:0 og þrjár glæsilegar afgreiðslur hjá Atla Sigurjónssyni. 

Fleiri urðu mörkin ekki og það er því Vesturbæjarliðið sem fer með öll þrjú stigin inn í næstu umferð. 

KR er áfram í sjötta sæti deildarinnar, nú með 24 stig, jafnmörg og Valur. ÍBV er einnig enn í níunda sæti með 12 stig. 

KR fer til Suðurnesjanna og mætir Keflavík í næsta leik sínum. ÍBV fær FH í heimsókn í alvöru fallbaráttuslag. 

KR 4:0 ÍBV opna loka
90. mín. Stefan Ljubicic (KR) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert