Jafntefli í stórleik umferðarinnar

Taylor Ziemer hjá Breiðabliki í baráttu við Stjörnukonuna Betsy Hassett …
Taylor Ziemer hjá Breiðabliki í baráttu við Stjörnukonuna Betsy Hassett í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stjarnan og Breiðablik gerðu 2:2 jafntefli Í Bestu deild kvenna í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. 

Fyrri hálfleikurinn var heldur daufur. Blikakonur byrjuðu betur en sköpuðu sér fá færi. Er fyrri hálfleikurinn var hálfnaður lifnaði aðeins við Stjörnunni sem tók mest alla stjórn á leiknum. Liðið skapaði sér þó ekki góð marktækifæri og því var markalaust er liðin gengu til búningsklefa. 

Tíðindi bárust er tólf mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þá tapaði Clara Sigurðardóttir boltanum klaufalega á miðjunni OG Betsy Hassett keyrði upp í sókn Betsy sendi boltann á Katrínu Ásbjörnsdóttur sem framlengdi hann á Jasmín Erlu Ingadóttur. Jasmín skaut í varnarmann en fékk boltann aftur og kom honum á Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur sem stýrði honum í netið, 1:0 og heimakonur komnar yfir, sem var fátt annað en verðskuldað. 

Það endist ekki lengi því níu mínútum síðar spretti Anna Petryk upp hægri kantinn og sendir háan bolta fyrir á fjærstöngina. Þar var Vigdís Lilja Kristjánsdóttir sem tók á móti boltanum með hnénu og þrumaði honum svo í þaknetið, 1:1 og allt jafnt í Garðabænum. 

Blikakonur komust svo yfir, nokkuð gegn gangi leiksins á 82. mínútu. Þá tók Agla María Albertsdóttir aukaspyrnu frá vinstri sem rataði beint á kollinn á Karitas Tómasdóttur sem skallaði boltann í stönginni. Þaðan fór hann í bakið á Chanté Sandiford og í netið, 1:2 og ólseigir Blikar komnir yfir. 

Stjörnukonur gáfust þó ekki upp og uppskáru á 89. mínútu. Þá sendi Anna María Baldursdóttir háan bolta fram völlinn. Þar var Jasmín Erla fyrst á knöttinn og lagði hann fyrir Anítu Ýr Þorvaldsdóttur sem setti boltann í netið, 2:2 og heimakonur búnar að jafna. 

Fleiri urðu mörkin ekki og 2:2 jafntefli því niðurstaðan. 

Bæði lið eru enn í öðru og þriðja sætinu. Stjarnan er í þriðja með 24 stig og Breiðablik í öðru með 28 stig. 

Bæði lið eiga leik í undanúrslitum bikarsins um helgina. Stjarnan fær Val í heimsókn og Breiðablik mætir Selfossi á Suðurlandi. 



Stjarnan 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert