Valur hafði betur í steikjandi hita í Slóveníu

Valur hafði betur gegn armensku meisturunum í Hasaya í Slóveníu …
Valur hafði betur gegn armensku meisturunum í Hasaya í Slóveníu í morgun. mbl.is/Óttar Geirsson

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn Armeníumeisturum Hayasa, 2:0, þegar liðin áttust við í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í Radenci í Slóveníu í dag.

Valskonur byrjuðu af krafti þar sem Cyera Hintzen og Sólveig Jóhannesdóttir Larsen komust báðar nálægt því að koma liðinu í forystu á fyrstu tíu mínútunum.

Á 14. mínútu braut Hintzen svo ísinn með frábæru einstaklingsframtaki.

Hún fékk þá boltann frá Ásdísi Karen Halldórsdóttur rétt fyrir framan miðju, tók á rás, sá glufu í vörn Hayasa og brunaði framhjá tveimur varnarmönnum, lét svo vinstri fótar skot ríða af nýkomin inn í vítateig og það hafnaði niðri í fjærhorninu. Kateryna Boklach í marki Hayasa  var í boltanum en tókst ekki að halda honum úti.

Lára Kristín Pedersen komst nálægt því að tvöfalda forystuna á 21. mínútu en skot hennar við markteig í kjölfar hornspyrnu fór í varnarmann rétt fyrir framan marklínuna og þaðan aftur fyrir í aðra hornspyrnu.

Valur stýrði ferðinni alfarið í fyrri hálfleiknum en eftir um hálftíma leik fór aðeins að draga af Valskonum og allar líkur eru á að aðstæður hafi þar haft mikið að segja enda steikjandi hiti í Radenci sem hækkaði einungis eftir því sem leið á leikinn og var mest orðinn 33 gráður í síðari hálfleik.

Þá var völlurinn þurr og slakur, sem varð þess valdandi að fyrsta snerting Valskvenna klikkaði óvenju oft, ekki síst þegar liðið var við það að koma sér í góðar stöður.

Staðan var því 1:0 fyrir Val í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn var tíðindalítill.

Valskonum tókst erfiðlega að skapa sér góð færi lengst framan af hálfleik en komust þó mjög nálægt því í þrígang en hættulegar fyrirgjafir enduðu ýmist í fangi Boklach eða voru ögn of fastar.

Á 83. mínútu fékk Hintzen loks kjörið tækifæri til þess að tvöfalda forystu Vals en skot hennar á lofti af markteig eftir skallasendingu Mist Edvardsdóttur fór yfir markið.

Undur lok leiks tókst Val loks að tvöfalda forystuna. Varamaðurinn Mariana Speckmaier slapp þá ein í gegn hægra megin eftir laglegan samleik við annan varamann, Elínu Mettu Jensen, Speckmaier reyndi svo fyrirgjöf með jörðinni sem fór í höndina á Olhu Basanska, varnarmanni Hayasa, og vítaspyrna réttilega dæmd.

Speckmaier steig sjálf á vítapunktinn og skoraði af feikna öryggi þegar hún smellti boltanum einfaldlega upp í samskeytin, óverjandi fyrir Boklach sem fór í rétt horn.

Staðan því orðin 2:0 og reyndust það lokatölur, sem þýðir að Valur er komið áfram í úrslitaleik 1. umferðar Meistaradeildar Evrópu.

Valur mætir annað hvort Pomurje frá Slóveníu eða Shelbourne frá Írlandi í úrslitaleik um sæti í 2. umferð, en þau mætast síðar í dag. Úrslitaleikurinn fer fram þann 21. ágúst á sama velli í Radenci í Slóveníu.

Valur 2:0 Hayasa opna loka
90. mín. Mariana Speckmaier (Valur) skorar úr víti 2:0 Þar kom annað markið loksins! Skorar af gífurlegu öryggi, setur boltann upp í samskeytin hægra megin!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert