Dásamlegt að vera búnar að klára þetta

Sandra og liðsfélagar hennar fagna í dag.
Sandra og liðsfélagar hennar fagna í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta er það sem við stefndum að og það er dásamlegt að vera búnar að klára þetta,“ sagði Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals og íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.

Valur vann Aftureldingu 3:1 í dag, en liðið þurfti að hafa fyrir sigrinum, gegn liði sem var að berjast fyrir lífi sínu. Úrslitin þýða að Afturelding er falin úr efstu deild.

„Við vissum að þær myndu mæta brjálaðar, því það var að duga eða drepast fyrir þær. Þær eru búnar að sína fína frammistöðu í sumar á meðan það var smá þreyta í okkur, en við kláruðum þetta vel í dag,“ sagði hún.

Tímabilið er búið að vera afar viðburðaríkt hjá Söndru, en hún varði mark Íslands á EM, hefur orðið tvöfaldur meistari heima og leikið Evrópuleiki með Val.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt, en á sama tíma erfitt. Það er algjörlega þess virði að vera í þessu. Ég er að njóta þess í botn,“ sagði Sandra.

Sandra var að sinna öðru hlutverki á meðan á viðtalinu stóð, því hún var að gæta dóttur Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur liðsfélaga síns. Sú litla ráfaði örlítið frá Söndru og voru svörin því stutt en hnitmiðuð seinni hluta viðtalsins.

En hvað gerir Valsliðið eins gott og raun ber vitni? „Það er góður hópur, gæði, reynsla leikmanna og frábærir þjálfarar og öll umgjörð sem gerir okkur því liði sem við erum í dag,“ sagði Sandra.

Næst á dagskrá hjá Val er útileikur gegn Slavia Prag í Meistaradeildinni. Sæti í riðlakeppninni er undir, en Valur þarf að vinna upp eins marks forskot eftir 0:1-tap í heimaleiknum.

„Við förum út í þessa ferð til að vinna þær. Það er bara eitt mark sem skilur að og ég hef fulla trú á að við getum það,“ sagði Sandra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert