Get varla lýst þessu

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir stekkur í fangið á Örnu Sif Ásgrímsdóttur …
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir stekkur í fangið á Örnu Sif Ásgrímsdóttur í fagnaðarlátunum í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, einn besti leikmaður Vals á tímabilinu, var skiljanlega kát þegar hún ræddi við mbl.is eftir 3:1-sigur á Aftureldingu í Bestu deildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum gulltryggði Valur sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Mér líður svo vel. Ég get varla lýst þessu. Þetta er skrítin tilfinning að taka ekki á móti bikarnum núna, en við bíðum spenntar eftir að taka á móti honum á heimavelli og fagna með stuðningsmönnunum. Þetta er búið að vera geðveikt tímabil,“ sagði Þórdís.

Valsliðið þurfti að hafa fyrir sigrinum í dag, gegn liði sem var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Að lokum var sigurinn nokkuð öruggur og varð til þess að Afturelding féll niður í 1. deild.

„Þær mættu grimmar til leiks og ætluðu að gera allt til að vinna, en við gerðum vel í að spila þær í sundur stundum og við nýttum færin sem við fengum. Þegar við komumst á ferðina og nýttum breiddina réðu þær ekki við okkur.“

Þórdís Hrönn horfir á Elínu Mettu Jensen í fær í …
Þórdís Hrönn horfir á Elínu Mettu Jensen í fær í dag. mbl.isHákon Pálsson

Þórdís lagði upp þrjú mörk í leiknum, en var samt sem áður ekki alsátt við eigin frammistöðu. „Þetta var upp og niður leikur hjá mér. Ég fann fyrir smá þreytu, enda búið að vera mikið álag, en þetta var bara skemmtilegt. Það er gott að halda áfram að leggja upp og búa til eitthvað fyrir liðsfélagana,“ sagði hún.

Þórdís er búin að vera mikilvægur hlekkur í Valsliðinu í sumar og hún segir tímabilið það besta á sínum ferli. „Þetta er mitt besta tímabil og ég hef aldrei unnið tvennuna áður. Það skemmir alls ekki fyrir í geggjuðu tímabili með liðinu og ég get verið sátt með mitt.“

Það er nóg fram undan hjá Val, því liði mætir Slavia Prag í seinni leik liðanna í Meistaradeildinni á þriðjudaginn ytra. Sæti í riðlakeppninni er undir, en Slavia vann fyrri leikinn á Origo-vellinum, 1:0. Síðan tekur við lokaumferð deildarinnar, þar sem Valskonur taka við Íslandsmeistarabikarnum.

Þórdís Hrönn á fleygiferð í dag.
Þórdís Hrönn á fleygiferð í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

„Við fögnum í kvöld en svo er það ferðalag á morgun til Tékklands og við ætlum að klára það dæmi. Við tökum svo á móti bikarnum í síðasta leiknum. Þá fögnum við almennilega. Ef við spilum eins og við gerðum í seinni hálfleik, þá eigum við að skora og vinna þetta lið. Við nýttum ekki færin okkar í síðasta leik á meðan þær byrjuðu að tefja á 40. mínútu og gera allt til þess að stoppa okkur. Við ætlum að gera eins og við gerðum í seinni og þá eigum við að vinna þetta lið.“

Það er sjaldgæft að lið vinni tvöfalt hér á landi og því ansi margt sem þarf að ganga upp til að það geti orðið að veruleika.

„Við vorum fljótar að læra inn á hvora aðra og vorum að spila vel sem lið. Við vorum ekki að reyna að vera einhverjir einstaklingar á vellinum, heldur sem lið. Það hjálpaði okkur í sumar. Þær unnu deildina í fyrra og það er erfitt að endurtaka það, hvað þá með álagi í Evrópukeppninni og bikarnum líka. Þetta var markmiðið okkar áður en tímabilið byrjaði og við náðum því,“ sagði Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert