„Ég er svo meyr“

Ameera Hussen í baráttunni í dag.
Ameera Hussen í baráttunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Bestu deild kvenna lauk í dag þegar að síðasta umferðin átti sér stað. ÍBV tók á móti Aftureldingu á Hásteinsvelli og enduðu leikar 3:0 fyrir ÍBV.

Liðið endaði í sjötta sæti með 29 stig, sama stigafjölda og Selfoss en verri markatölu. Mbl.is gaf sig á tal við Ameeru Hussen sem hefur verið lykilleikmaður í liði ÍBV á tímabilinu og var með mark og tvær stoðsendingar í leiknum í dag.

„Ég er svo meyr. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að koma og spila hérna í sumar. Ég er svo þakklát þjálfurunum og félaginu fyrir að hafa trú á mér. Ég á erfitt með að setja það í orð, ég veit ekki hvar ég verð næsta sumar en ég veit að framtíðin er björt hjá ÍBV íþróttafélaginu“ sagði Ameera við mbl.is eftir leik.

„Persónulega langaði mig að byrja alla leikina og til þess þarf maður að standa sig vel á æfingum þannig að mér fannst það gott markmið. Mig langaði líka að ná inn mörkum og stoðsendingum en í byrjun sumars fannst mér ég eiga aðeins erfitt með það. Ég var svolítið í hausnum á mér og ekki nógu viss með mig en þegar á leið þá fór ég að líkjast sjálfri mér meir“

Fyrir tímabilið spáði mbl.is ÍBV sjöunda sætinu en liðið endaði í sjöunda sæti á síðustu leiktíð með 22 stig.

„Ég er bara nokkuð sátt með okkur. Stundum hefðum við getað ýtt aðeins meir til að fá meira út úr leikjum. Við stóðum oft jafnfætis við liðin í efri hluta deildarinnar og hefðum átt að hirða fleiri stig á móti mörgum þeirra. Það eru ekki mörg lið sem koma hingað og sækja þrjú auðveld stig og þannig viljum við hafa það.

Sem lið langaði okkur að gera betur en í fyrra og við gerðum það. Við getum verið svolítið óútreiknanlegar, unnum kannski stórsigur og töpuðum svo eða gerðum jafntefli í leik sem við áttum að vinna eða sækja stig í. Það eru vonbrigði því að maður getur ekki fengið þann leik aftur “

Hvaða lærdóm má draga af þessu tímabili hjá ykkur?

„Við þurfum svolítið að fara í gegnum það hvernig við verjumst saman sem lið því að varnarvinna vinnur leiki. Við áttum erfitt með það í sumum leikjum en yfirhöfuð gerðum við það ágætlega. Nú er bara að fara yfir myndbönd og skoða það sem að maður þarf að bæta sig. Við þurfum líka að einbeita okkur af því að það er ekki nóg að ná skoti á markið heldur þarf boltinn að fara yfir línuna til þess að það telji.

Við erum að ná mörgum skotum á markið í leik en ekki nógu mikið af þessum skotum er að fara inn í markið. Það er eitthvað sem við getum unnið með á undirbúningstímabilinu“ sagði Ameera áður en hún þakkaði fyrir sig og dreif sig inn í búningsklefa að fagna með liðsfélögum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert