Þetta var nákvæmlega eins og þetta á að vera

Viktor Örlygur eltir Oliver Heiðarsson í leiknum í kvöld.
Viktor Örlygur eltir Oliver Heiðarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar

Viktor Örlygur Andrason, leikmaður Víkings, var ánægður en þreyttur eftir 3:2-sigur liðsins á FH í framlengdum úrslitaleik Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í kvöld.

„Þreyta. Þetta var aðeins meiri úrslitaleikur en síðustu tvö skipti. Þetta var bara nákvæmlega eins og þetta á að vera.

Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og við gerðum það. Við hefðum kannski viljað klára þetta á 90 mínútum, halda þetta út, þetta voru svolítið klaufaleg mörk sem við fáum á okkur.“

Víkingur virtist vera búinn að tryggja sér titilinn þegar Nikolaj Hansen kom liðinu yfir á 89. mínútu. FH hins vegar jafnaði mínútu síðar og sendi leikinn í framlengingu.

„Það var smá svekkelsi en við misstum aldrei trúna. Við trúðum að við myndum skora annað mark, vorum bara þolinmóðir og svo kom þetta á endanum.“

Það eru enn fimm leikir eftir af Íslandsmótinu. Verður eitthvað mál fyrir Víkinga að stilla hausinn af fyrir þá leiki?

„Nei, það held ég ekki. Við erum alltaf til í að spila fótbolta. Það eru fimm erfiðir leikir eftir svo við verðum bara að mæta í þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert