Fyrirliðinn framlengdi í Kópavogi

Ásta Eir Árnadóttir í leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni í …
Ásta Eir Árnadóttir í leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni í upphafi sumars. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild félagsins.

Ásta Eir lék sinni fyrsta meistaraflokksleik fyrir Breiðablik árið 2009, þá 16 ára gömul. Síðan þá hefur hún leikið 226 keppnisleiki og skorað í þeim 12 mörk. Þar af eru 139 leikir og sex mörk í efstu deild.

Ásta Eir er þrefaldur Íslandsmeistari með Breiðabliki auk þess sem hún hefur orðið bikarmeistari með liðinu í þrígang, síðast árið 2021. Hún lék fyrstu tíu leiki Blika í Bestu deildinni í ár en missti af síðustu átta vegna meiðsla.

Þá á hún að baki 11 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

„Ásta Eir, sem er fyrirliði meistaraflokks, er gríðarlega öflugur bakvörður og er mikill leiðtogi í Blikaliðinu. Það er mikið fagnaðarefni fyrir Blika að Ásta Eir sé búin að skrifa undir nýjan samning.

Við hlökkum til að sjá Ástu leiða Blikaliðið út á völlinn á komandi misserum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert