Frá Danmörku og heim í Breiðablik

Ágúst Eðvald Hlynsson er orðinn leikmaður Breiðabliks á nýjan leik.
Ágúst Eðvald Hlynsson er orðinn leikmaður Breiðabliks á nýjan leik. Ljósmynd/Breiðablik

Knattspyrnumaðurinn Ágúst Eðvald Hlynsson hefur gert þriggja ára samning við uppeldisfélagið sitt Breiðablik.

Ágúst kemur til Breiðabliks frá Horsens í Danmörku, en hann lék með Val að láni á síðustu leiktíð. Þar á undan lék hann hálft tímabil með FH, einnig að láni.

Miðjumaðurinn á 79 leiki að baki í efstu deild með Víkingi úr Reykjavík, Breiðabliki, Val og FH, þar sem hann hefur skorað 14 mörk. Ágúst skoraði tvö mörk í 21 leik með Val á síðustu leiktíð.

Ágúst fór ungur að árum til Norwich á Englandi og síðan Brøndby í Danmörku. Eftir tvö góð tímabil hjá Víkingi fór hann til Horsens, en náði ekki að vinna sér inn sæti í danska liðinu og lá leiðin því aftur heim.

Leikmaðurinn, sem er 22 ára, hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands, en enn ekki leikið A-landsleik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert