„Á að vera prinsipp okkar að vinna baráttuna“

Andri Fannar Baldursson í leik með íslenska U21-árs landsliðinu á …
Andri Fannar Baldursson í leik með íslenska U21-árs landsliðinu á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bara svekkelsi. Við fáum á okkur tvö klaufaleg mörk sem við hefðum léttilega getað komið í veg fyrir. En svona er þetta og það er ekkert sem hægt er að gera núna,“ sagði Andri Fannar Baldursson, miðjumaður íslenska U21-árs landsliðsins í knattspyrnu, eftir 1:2-tap fyrir Írlandi í vináttuleik í Cork í gær.

Ísland komst yfir í leiknum með laglegu marki Kristals Mána Ingasonar en Írar sneru taflinu svo við.

„Við skoruðum gott mark í byrjun og fengum svolítið „búst“ með því og skorum strax annað mark, sem ég veit ekki alveg hvort að hafi verið rangstaða eða ekki, við þurfum bara að skoða það.

Svo skora þeir og það er smá sjokk. Í kjölfarið fá þeir kannski aðeins meira sjálfstraust og keyra aðeins á okkur. Svo fannst mér við taka yfir leikinn en náðum ekki að skapa okkur nógu hættuleg færi,“ bætti Andri Fannar við í samtali við KSÍ TV.

Honum þótti sem íslenska liðið gæti gert betur og þá sérstaklega hvað baráttuanda varðar.

„Það var erfitt að spila fótbolta á þessum velli, boltinn skoppaði mjög mikið og völlurinn var mjúkur. Við vorum að reyna. Þeir voru svolítið í löngum boltum, voru að vinna þá og komast í hættuleg færi í gegnum það.

Þeir börðust eins og ljón og við hefðum þurft að eiga betur við þetta, vera aðeins grimmari og vinna fleiri einvígi. Við erum Íslendingar og eigum að gera það, það á að vera okkar prinsipp að vinna baráttuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert