Fáir þjálfarar gengið í gegnum svona

Arnar Þór Viðarsson gekk í gegnum ýmislegt á meðan hann …
Arnar Þór Viðarsson gekk í gegnum ýmislegt á meðan hann var landsliðsþjálfari. Ljósmynd/Alex Nicodim

Tími Arnars Þórs Viðarssonar sem landsliðsþjálfari karla í fótbolta var ekki dans á rósum. Góðu augnablikin á vellinum voru af skornum skammti, mikil endurnýjun var á leikmönnum og síðast en ekki síst þurfti hann að taka á mörgum erfiðum málum.

Arnar var landsliðsþjálfari þegar öll stjórn KSÍ sagði af sér vegna ósættis í samfélaginu með viðbrögð sambandsins vegna meintra kynferðisbrota leikmanna. Arnar var rekinn úr starfi sem landsliðsþjálfari í dag, en formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, segir Arnar eiga hrós skilið.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Arnari Þór og það hafa fáir þjálfarar gengið í gegnum það sem hann hefur þurft að ganga í gegnum, bæði endurnýjunin og öll þessi mál. Hann stóð þetta af sér og á virðingu skilið fyrir það. Það er margt sem hann gerði fyrir okkur hjá KSÍ og íslenskan fótbolta.

Hann kom inn sem sviðsstjóri knattspyrnusviðs og tók margar góðar ákvarðanir. Við erum þakklát, sem er skrítið að segja á sama tíma og við erum að gera þetta. Við sem stjórn teljum að við þurfum að taka þessa ákvörðun að skipta um þjálfara,“ sagði Vanda við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert