„Kristján veit mjög mikið um fótbolta“

Sædís Rún Heiðarsdóttir, Stjörnunni, í baráttu við Linli Tu, Keflavík, …
Sædís Rún Heiðarsdóttir, Stjörnunni, í baráttu við Linli Tu, Keflavík, í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sædís Rún Heiðarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, var frábær í 3:0-sigri liðsins á Keflavík í kvöld í Bestu deild kvenna í fótbolta. Sædís lagði upp tvö mörk og ógnaði í sífellu á vinstri kantinum.

„Ég er mjög sátt, það er mjög mikilvægt að fá þrjú stig og sérstaklega á heimavelli.“

Sædís átti fyrirgjöf í öðru marki Stjörnunnar og fór boltinn, að því er virtist, ósnertur í markið. Sædís segir að Jasmín Erla Ingadóttir hafi eignað sér markið eftir leik.

„Jasmín snerti hann, þannig að hún á markið. Ég átti tvær stoðsendingar, er sátt með það.“

Það er mikil ógn sóknarlega af bakvörðum Stjörnunnar, bæði Sædísi og Örnu Dís Arnþórsdóttur sem spilar hægra megin. Sædís segir að Kristján ætlist til mikils af þeim.

„Bakverðir í dag eru orðnir miklu meiri sóknarmenn en þeir voru. Kristján ætlast til þess að við séum að fara fram og hann veit mjög mikið um fótbolta þannig að hann veit alveg hvað hann er að gera.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefur komið mjög vel inn í Stjörnuliðið eftir að hún kom heim úr atvinnumennsku. Sædís segir hana gefa liðinu mjög mikið.

„Hún gefur okkur rosalega mikið, hvort sem það er okkur ungu stelpunum jafnt og hinum. Hún er rosalegur karakter og rífur liðið áfram í hverjum leik.“

Stjarnan fer í heimsókn í Kópavoginn í næstu umferð þar sem liðið spilar á móti nágrönnum sínum í Breiðabliki. Sædís er spennt fyrir þeim leik.

„Ég er mjög spennt fyrir því verkefni og við þurfum að mæta almennilega stemmdar í þann leik, eins og alla aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert