Stöngin út hjá okkur í dag

Camila Pescatore, varnarmaður ÍBV, með boltann í leiknum í dag.
Camila Pescatore, varnarmaður ÍBV, með boltann í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti Tindastóli í Bestu deild kvenna í dag í 6. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta. Enduðu leikar 2:1 fyrir gestina eftir að Eyjakonur komu sér yfir þegar aðeins ein mínúta var liðin af leiknum.

Mbl.is gaf sig á tal við Guðnýju Geirsdóttur, markvörð ÍBV, sem stóð sig vel í dag þrátt fyrir tvö mörk.

„Við vorum óheppnar í dag. Eigum tvö hörkuskot í stangirnar bæði í fyrri og seinni hálfleik en þetta varð bara svolítið slappt hjá okkur eftir markið okkar. Þetta er svo fúlt af því að við vorum að fara yfir krossana á æfingu í gær og svo fáum við tvö mörk á okkur úr krossum“.

Segja má að margir hafi gert ráð fyrir því að liðið myndi sækja þrjú stig á móti nýliðunum á Hásteinsvelli í dag.

„Þetta var pínu stöngin út hjá okkur. Olga skorar mark eftir stoðsendingu frá markmanni sem er alveg eins og markið sem við skoruðum á móti Þrótti svo eigum við tvö stangarskot en hvorugt vill inn. Þetta gekk bara ekki alveg nógu vel. Við þurfum að vinna í jafnvæginu í okkar leik“.

Guðný átti stoðsendinguna í dag og varð með henni stoðsendingahæst í liðinu eftir sex fyrstu leikina.

„Já það er áhugavert. Við erum svo sem ekki búnar að skora mikið af mörkum en ekki fá á okkur mörk mörk heldur. Búnar að skora tvö mörk úr föstum leikatriðum, horni og aukaspyrnu. Ánægjulegt fyrir mig persónulega en þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta úr“.

Liðið er komið með sex stig eftir fyrstu sex umferðirnar og sjá mátti á svip leikmanna eftir leik að þær væru svekktar með árangurinn.

„Já þetta lýsir ekki frammistöðunni okkar hingað til finnst mér. Það eru búnir að vera þrír eins marka leikir sem að hefðu getað dottið hvoru megin sem var og hefðu getað endað í jafntefli.“

Næsti leikur liðsins er á útivelli á móti Keflavík 6. júní næstkomandi þar sem að þær mæta sínum gamla þjálfara, Jonathan Glenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert