Langþráður sigur Eyjamanna

Leikmenn ÍBV fagna marki í kvöld.
Leikmenn ÍBV fagna marki í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti HK í Bestu deild karla í knattspyrnu á Hásteinsvelli í kvöld. Krefjandi aðstæður höfðu skemmtileg áhrif á leikinn sem var hraður og bauð upp á urmul marktækifæra. Leikurinn endaði 3:0 fyrir ÍBV, en sigurinn var síst of stór þar sem heimamenn voru umtalsvert sterkari aðilinn í leiknum.

Liðin voru bæði að koma úr taphrinu. Eyjamenn höfðu fyrir leikinn tapað fimm leikjum í röð og sátu á botni deildarinnar með 6 stig. Gestirnir höfðu tapað þremur leikjum í röð en voru þó í 6. sæti með 13 stig.

Fyrir leik kom handboltalið ÍBV þrammandi með Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í farteskinu, en þeir urðu Íslandsmeistarar í gærkvöldi eins og frægt er orðið. Þeir settust í nyrðri stúkuna við Hásteinsvöll og skutu upp nokkrum flugeldum meðan á leiknum stóð, þar á meðal strax eftir upphafsflautið. Það verður áhugavert að sjá hvort að einhverjir eftirmálar verða í kjölfarið. Liðin létu þetta þó lítið á sig fá og var leikurinn strax hraður og fjörugur.

Heimamenn í ÍBV skoruðu fyrsta mark leiksins eftir aðeins sjö mínútna leik. Alex Freyr Hilmarsson vann þá boltann ofarlega á vallarhelmingi HK og fann Oliver Heiðarsson úti á hægri vængnum. Oliver átti fasta fyrirgjöf meðfram jörðinni fyrir mark HK-inga þar sem Sverrir Páll Hjaltested beið á fjærstönginni og skoraði í opið markið. 1:0 fyrir heimamönnum í ÍBV.

ÍBV varð fyrir áfalli 10 mínútum seinna þegar þeirra reyndasti maður og fyrirliði í dag, Alex Freyr, virtist togna aftan í læri og þurfti að fara útaf. Inn á kom Eyþór Daði Kjartansson sem átti eftir að láta að sér kveða í leiknum. Um 20 mínútum síðar meiddist Birkir Valur Jónsson í liði HK-inga og þurfti einnig að fara af velli, fyrir Eið Atla Rúnarsson.

Rétt fyrir hálfleik fengu Eyjamenn aukaspyrnu á hættulegum stað fyrir utan teig HK. Brotið var á varamanninum Eyþóri Daða Kjartanssyni og tók hann spyrnuna sjálfur í kjölfarið. Hann gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum glæsilega í mark HK-inga þar sem Arnar Freyr Ólafsson kom engum vörnum við. 2:0 fyrir ÍBV.

Aðeins mínútu síðar átti Ahmad Faqa, varnarmaður HK, slakan skalla úr dauðafæri eftir aukaspyrnu Atla Hrafns Andrasonar. Kjörið tækifæri fyrir HK til að lauma sér óvænt aftur inn í leikinn fór þar forgörðum.

Eyjamenn áttu umtalsvert af frambærilegum marktækifærum í leiknum í kvöld og var Oliver helst af brenna af tækifærunum þegar hann átti tvímælalaust að gera betur. Ekki voru skoruð fleiri mörk í fyrri hálfleik og heimamenn, sem réðu lögum og lofum á vellinum í kvöld, gengu til leikhlés með tveggja marka forystu.

Í síðari hálfleik voru heimamenn ekki lengi að taka upp þráðinn á ný. Þeir bættu við þriðja markinu þegar Felix Örn Friðriksson skoraði eftir um 49 mínútna leik. Elvis Bwomono átti þá fyrirgjöf af hægri kantinum sem barst til Arnars Breka Gunnarssonar, sem gerði vel í að finna Felix Örn í svæði vinstra megin í teignum. Felix Örn lék á tvo HK-inga áður en hann skaut boltanum fast framhjá Arnari Frey í marki HK-inga. 3:0 fyrir Eyjamönnum og HK varla með í leiknum.

Eins og áður sagði áttu Eyjamenn talsvert af marktækifærum í leiknum en fóru illa með þau. Hægt og rólega fjaraði oddurinn út hjá heimamönnum og HK-ingar reyndu að krafsa í bakkann. Allt kom fyrir ekki og endaði leikurinn með öruggum 3:0 sigri heimamanna.

Eyjamenn eru eftir leikinn með 9 stig og fara úr fallsæti og upp í 9. sæti deildarinnar. HK sitja enn í 6. sæti með 13 stig, en hafa nú tapað þremur leikjum í röð.   

ÍBV 3:0 HK opna loka
90. mín. Felix Örn Friðriksson (ÍBV) á skot yfir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert