HK á toppinn og fyrstu stig KR

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði sigurmark HK.
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði sigurmark HK. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK komst í efsta sætið í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og KR-konur fengu sín fyrstu stig í deildinni.

HK sótti Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn og vann þar góðan sigur, 1:0. Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði strax á 2. mínútu og það reyndist vera sigurmarkið.

HK er með 13 stig á toppi deildarinnar en Grótta og Víkingur úr Reykjavík eru með 12 stig. Víkingur á leik til góða gegn Fylki á morgun en Fylkir er með 7 stig í fjórða sætinu.

Á Meistaravöllum lagði KR lið Grindavíkur að velli, 2:1. Hugrún Helgadóttir kom KR yfir á 6. mínútu og Jewel Boland bætti við öðru marki á 56. mínútu. Arianna Lynn Veland minnkaði muninn fyrir Grindavík á 63. mínútu og þar við sat.

KR komst af botninum og er með 3 stig eins og Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir en Fram er nú í neðsta sætinu með eitt stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert