Þetta mallar

Viktor Karl Einarsson snýr baki í myndavélina í leiknum í …
Viktor Karl Einarsson snýr baki í myndavélina í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin er gríðarlega sæt,“ sagði miðjumaður Breiðabliks, Viktor Karl Einarsson, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins á FH í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld.

„Það er alltaf gaman að fara áfram í bikar, sérstaklega þegar maður þarf að hafa fyrir hlutunum. Þeir komust yfir og við þurftum að sýna þolinmæði, gerðum það vel og á endanum sigldum við þessu,“ sagði Viktor um tilfinninguna beint eftir leik.

Breiðablik hefur sýnt aðra eiginleika á þessu tímabili heldur en síðasta. Það virðist vera meiri harka í liðinu og það er að ná að sigra leiki oft á tæpasta vaði, án þess að keyra alveg yfir lið eins og í fyrra. Viktor segir það vera mikill styrkur að ná að klára leiki svona seint og að frammistaðan verði einungis betri.  

„Klárlega, það er að mínu mati sterkt að sýna að við getum líka unnið leiki svona, á seiglunni. Við erum að vinna leiki núna seint, eins og þennan og höfum líka verið að skora seint í leikjum. Það sýnir bara karakter og þolinmæði. Það þarf ekki alltaf að vinna leiki 4:0, við getum líka unnið svona baráttusigra. 

Við verðum betri því fleiri leiki sem við spilum og við erum ekki búnir að tapa í nokkrum leikjum í röð sem er gott og gefur liðinu sjálfstraust. Þetta mallar sem er ánægjulegt. 

Eins og staðan er núna erum við held ég í þriðja sæti og erum bara að elta Víkinga og Valsmenn. Mótið hefur farið vel af stað og það er mikil spenna í þessu. Heilt yfir er ég mjög ánægður með það hingað til.“

Næsti leikur Breiðabliks er einmitt aftur gegn FH, nú í deild og í Kaplakrika. Viktor býst við töluvert öðruvísi leik þar.  

„Ég held að það verði töluvert töluvert öðruvísi leikur vegna þess að við erum að fara í Kaplakrikann og á gras. Það er alltaf annar leikur, sérstaklega núna miðað við hvernig vallaraðstæður eru. Ég held að það verði meiri harka og barátta sem verður bara gaman að taka þátt í,“ sagði Viktor Karl að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert