Logi og Sölvi í eins leiks bann

Logi Tómasson var úrskurðaður í eins leiks bann.
Logi Tómasson var úrskurðaður í eins leiks bann. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Logi Tómasson, bakvörður Víkings úr Reykjavík, og Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari liðsins, hafa verið úrskurðaðir í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands í dag. 

Logi og Sölvi fengu báðir rautt spjald í eldheitum leik Víkinga gegn Breiðabliki síðastliðinn föstudag. Þar fór allt úr böndunum á lokamínútunum og eftir leik þar sem Sölvi átti í hörðum orðaskiptum við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, og Logi hrinti Halldóri Árnasyni, aðstoðarþjálfara Kópavogsliðsins, beint eftir leik.  

Ásamt því fá Víkingar 24.000 krónur í sekt, 20.000 vegna rauðs spjalds Sölva og 4.000 vegna sjö refsistiga. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, sleppur hinsvegar við bann en mikil umræða myndaðist um viðtal hans við Stöð 2 sport beint eftir leik þar sem hann fór ekki fögrum orðum um dómara leiksins, Ívar Orra Kristjánsson. 

Jóhann Ægir Arnarsson, miðvörður FH, verður í banni gegn Breiðabliki á laugardaginn en hann fékk beint rautt spjald gegn Val í síðasta deildarleik. 

Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, miðvörður Keflavíkur, fer í eins leiks bann vegna sjö gulra spjalda og missir því af leiknum gegn Stjörnunni. Þetta er því annað leikbann hans á tímabilinu.

Elvis Okello Bwomono, varnarmaður ÍBV, fær einnig eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda og missir af leiknum gegn KR.

Ásamt því fær Guðjón Pétur Lýðsson, leikmaður 1. deildar liðs Grindavíkur, tveggja leika bann vegna rauðs spjalds gegn Aftureldingu. 

Þá er Ágúst Eðvald Hlynsson úr Breiðabliki kominn í bann í bikarkeppninni vegna tveggja gulra spjalda í keppninni og tekur það út í undanúrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert