Leikmenn og starfslið fengu áfallahjálp

Simon Kjær, fyrirliði Danmerkur, var líkt og liðsfélagar hans sleginn …
Simon Kjær, fyrirliði Danmerkur, var líkt og liðsfélagar hans sleginn yfir því þegar Christian Eriksen hneig niður og barðist fyrir lífi sínu í gær. AFP

Leikmenn og starfslið danska landsliðsins í knattspyrnu karla hafa fengið áfallahjálp eftir atvikið óhugnanlega í leik liðsins gegn Finnlandi á Evrópumótinu í gær, þar sem Christian Eriksen hneig niður og barðist fyrir lífi sínu.

Endurlífgunartilraunir læknaliðsins báru árangur og líðan Eriksen er enn stöðug og hann með meðvitund á ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn, að því er kemur fram í tilkynningu frá danska knattspyrnusambandinu nú í morgun.

„Líðan hans er stöðug og hann er enn þá á spítalanum þar sem áfram er verið að skoða hann. Í morgun erum við búin að tala við Christian, sem er búinn að senda kveðju til liðsfélaga sinna.

Leikmenn og starfslið landsliðsins eru búnir að fá áfallahjálp og munu halda áfram að vera til staðar fyrir hver annan eftir atvik gærdagsins. Við viljum þakka öllum fyrir hjartnæmar kveðjur,“ sagði í yfirlýsingunni.

Ekki kom þó fram hvort leikmenn hafi fengið áfallahjálp í gær, áður en leikurinn hófst að nýju, en líkt og Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, sagði á blaðamannafundi í gær voru leikmenn liðsins búnir á því andlega þegar leikurinn hófst að nýju tæpum tveimur klukkutímum eftir að Eriksen hafði hnigið niður.

Skjót og mikilvæg viðbrögð Kjær

Simon Kjær, fyrirliði Dana, var einn af þeim fyrstu á vettvang og kom Eriksen strax í læsta hliðarlegu ásamt því að ganga úr skugga um að liðsfélaginn væri ekki búinn að gleypa tungu sína áður en læknaliðið kom á vettvang.

Hann fyrirskipaði einnig að leikmenn Danmerkur mynduðu verndarskjöld utan um Eriksen svo læknaliðið fengi næði til þess að hlúa að honum.

Kjær kom einnig Sabrinu Kvist Jensen, eiginkonu Eriksens, til huggunar ásamt Kasper Schmeichel, eftir að hún kom úr stúkunni og inn á völlinn.

Fyrirliðinn var því skiljanlega og sjáanlega sleginn yfir atvikinu óhugnanlega og andlega þreyttur vegna þess sem á eftir kom og var því tekinn af velli þegar um 18 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin