Andstæðingar dagsins: Serbar

Petar Nenadic.
Petar Nenadic. AFP

Andstæðingar dagsins á EM eru Serbar. Þjóðirnar takast á í Spaladium-höllinni í Split í Króatíu klukkan 17:15 í dag að íslenskum tíma. Með sigri kemst Ísland áfram í milliriðil, skilur Serbíu eftir og tekur þá með sér 2 stig fyrir sigurinn á Svíum.

Hér eru nokkrir punktar um Serba:

- Frá því Serbía fékk sjálfstæði hefur liðið unnið nokkrum sinnum til verðlauna á stórmótum karla í handbolta en hefur þó ekki unnið stórmót frekar en Ísland. Serbar léku til úrslita á EM á heimavelli 2012 en töpuðu fyrir Dönum í úrslitaleik og fengu silfurverðlaun. Auk þess fékk Serbía brons á EM 1996 og HM 1999 og 2001 en í sumum tilfellum undir öðru nafni.

- Þjálfari Serbíu á EM 2018 var mikil kempa sem leikmaður. Jovica Cvetkovic varð heimsmeistari með Júgóslavíu árið 1986 og var drjúgur í úrslitaleiknum gegn Ungverjum fyrir framan ekki ómerkari blaðamenn en Víði Sigurðsson og Ágúst Inga Jónsson. Á þeim tíma barðist hann um skyttustöðuna við „Íslandsvininn“ Zlatko Saracevic. Cvetkovic lék með hinu stórkostlega liði Metaloplastika eitt tímabil, einu flottasta handboltaliði sögunnar, áður en hann fór til Þýskalands og Spánar. Þjálfaði hann Serbíu 2006-2009 og tók aftur við landsliðinu 2016. 

-Lítill meðbyr hefur verið með Serbum í Split. Svo gott sem engir stuðningsmenn eru á pölllunum og skakkafölll urðu í aðdraganda mótsins. Serbía átti litla möguleika gegn Króatíu í fyrsta leik. Serbar áttu meiri möguleika gegn Svíum en töpuðu engu að síður. Tapi liði gegn Íslandi fer Serbía heim eftir riðlakeppnina. 

- Handboltahefðin er mikil í Serbíu og þjóðin hefur framleitt marga snjalla handboltamenn. Í liði Serbíu eru snjallir leikmenn. Vinstri skyttan Petar Nenadic var markahæstur í þýsku bundesligunni tímabilið 2015-2016. Slíkt afreka einungis toppmenn. Er hann samherji Bjarka Más Elíssonar hjá Füsche Berlín.

- Markvörður Serba, Strahinja Milic, leikur með Vardar sem sigraði í Meistaradeild Evrópu á síðasta keppnistímabili. 

- Hægri skyttan Marko Vujin sem hefur í mörg ár leikið hjá Alfreð Gíslasyni í Kiel meiddist í fyrsta leiknum gegn Króatíu og verður ekki með gegn Íslandi. 

- Einn allra snjallasti handboltamaður sögunnar er fæddur í gömlu Júgóslavíu á svæði sem nú er Serbía. Vinstri hornamaðurinn Mile Isakovic sem var ósigrandi um tíma með Metaloplastica í keppnum félagsliða og vann gull á Ólymíuleikunum 1984 og heimsmeistarakeppninni 1986 með Júgóslavíu. 

Hvað þýða úrslitin fyrir Ísland?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert