Áræðnina skorti að mati Geirs

Geir Sveinsson
Geir Sveinsson Ljósmynd/Uros Hocevar

Landsliðsþjálfarinn, Geir Sveinsson, sagði í samtali við mbl.is að frammistaða Íslands hafi ekki verið nægilega góð á heildina litið, þegar liðið tapaði fyrir Serbíu í Split á EM í handknattleik í kvöld. Aldrei kunni góðri lukku að stýra að reyna að verja eitthvað fremur en að sækja. 

„Frammistaðan var á heildina litið ekki nægilega góð. Við töpuðum leiknum með þriggja marka mun og það var ekki það sem við ætluðum okkur. Ég verð að segja eins og er að við vorum að reyna að verja eitthvað frekar en að sækja. Menn eru að passa upp á markamun, hvað megi og hvað ekki. Við komumst aldrei almennilega í takt þótt við höfum átt fína spretti. Okkur vantaði svolítið þessa áræðni sem hefur verið til staðar í fyrstu tveimur leikjunum,“ sagði Geir en Ísland var yfir 20:16 en tapaði 26:29. Hefði Ísland tapað með fjögurra marka mun eða meira þá hefði það verið úr leik á EM en þarf nú að bíða eftir úrslitum í leik Króata og Svía. 

Spurður um hvort lokakaflinn hafi tekið of mikið á taugar leikmanna sagðist Geir ekki útiloka það. „Ég hugsa að það sé málið. Við náðum ekki að láta boltann ganga nógu hratt og fórum of mikið í að stinga inn á línu. Spiluðum bara ekki nógu vel á lokakaflanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert