Draga verður úr sveiflum

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Helsta áhyggjumálið eftir leikina tvo finnst mér hversu miklar sveiflur eru í leik liðsins. Það voru tveir langir kaflar í leiknum við Svía þar sem við skoruðum ekki mark og svipað átti sér stað í viðureigninni við Króata, bæði í fyrri og seinni hálfleik,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH, spurður um hans mat á frammistöðu íslenska landsliðsins í handknattleik karla á Evrópumeistaramótinu í Króatíu.

„Til þess að fá meira út úr þessu móti verðum við að fækka tæknifeilum. Þeir hafa verið alltof margir í tveimur fyrstu leikjunum og nánast alltaf þeir sömu. Menn hafa verið svolítið í því að rétta andstæðingunum boltann en einnig að bregðast bogalistin í opnum færum. Línumennirnir voru slakir í leiknum við Króata. Á sama tíma voru mennirnir fyrir utan afar góðir,“ sagði Halldór Jóhann sem er ánægður með hversu duglegur Geir Sveinsson landsliðsþjálfari hefur verið að dreifa álaginu á milli leikmanna íslenska liðsins.

„Geir hefur aukið breiddina í leikmannahópnum eins og hann hefur spilað úr hópnum í tveimur fyrstu leikjunum. Leikmenn eru klárir á sínum hlutverkum.“

Halldór Jóhann segir að Serbar hafi leikið svipaðan varnarleik og Króatar gerðu gegn Íslendingum. „Serbar hafa ekki á að skipa eins góðu liði og Króatar. Þar af leiðandi tel ég að íslenska liðið eigi mikla möguleika í leiknum annað kvöld [í kvöld]. Serbar eiga það líka til að vera brothættir, ekki síst ef okkur tekst að byrja leikinn af talsverðum krafti þá eru möguleikarnir góðir,“ sagði Halldór Jóhann sem leggur áherslu á að varnarleikur íslenska liðsins verði að vera góður frá fyrstu mínútu.

Sjá allt viðtalið við Halldór Jóhann og allt um EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert