„Leiðinlegt að þurfa að treysta á aðra“

Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson fara yfir málin.
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson fara yfir málin. Ljósmynd/Gordan Lausic

Aron Pálmarsson skoraði 4 mörk þegar Ísland tapaði fyrir Serbíu 26:29 á EM í handknattleik í dag. Hann sagði klaufaskap í sókninni hafa ráðið úrslitum á lokakaflanum en Ísland var um tíma yfir, 20:16. 

„Við vorum klaufar að henda þessu frá okkur. Mistök í sókninni sem dæmi. Mér fannst við fínir í vörninni og í sókninni fannst mér við vera með tak á þeim. Sérstaklega á tuttugu mínútna kafla þar sem við náðum yfirleitt að komast í gegn og fá góð færi. Að sama skapi vorum við alltaf að fá mark í bakið og það var mjög erfitt. Við náðum aldrei að losa okkur almennilega við þá. Við gerðum nokkur mistök og þá komust þeir aftur inn í leikinn. Það er leiðinlegt að þurfa að treysta á aðra og það var ekki ætlunin,“ sagði Aron þegar mbl.is ræddi við hann í Spaladium-höllinni. 

Serbum tókst að hanga í íslenska liðinu þegar Ísland var með forystu framan af síðari hálfleik. Þeir höfðu tapað fyrstu tveimur leikjunum og hefðu mögulega brotnað ef forskot Íslands hefði orðið aðeins stærra. „Þegar við náðum fjögurra marka forskoti þá hefðum við þurft að fá aðeins meiri markvörslu til að ná muninum upp í sex til sjö mörk. Þá hefði þetta væntanlega orðið þægilegt en þeir skoruðu nánast alltaf þegar þeir komust í loftið. Þeir eru auðvitað með fínar skyttur en ekki svona góðar finnst mér. Fyrir vikið varð þetta erfitt,“ sagði Aron enn fremur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert