Lifa fyrir leiki sem þessa

Guðjón Valur á vítapunktinum í leiknum gegn Svíum.
Guðjón Valur á vítapunktinum í leiknum gegn Svíum. Ljósmynd/Gordan Lausic

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði Íslands, segir landsliðsmennina vera á ágætum stað fyrir leikinn mikilvæga gegn Serbíu í Split á EM í handknattleik í dag en hann hefst klukkan 17.15 að íslenskum tíma.

Eftir góðan sigur á Svíum en tap fyrir firnasterku liði heimamanna getur Ísland komist áfram í milliriðil með 2 stig ef þeir leggja Serba að velli sem tapað hafa fyrir Króötum og Svíum. Tapi Ísland er hætta á að liðið þurfi að fara heim en þrjú lið fara áfram í milliriðil og eru Króatar og Svíar öruggir áfram en spurning hversu mörg stig þeir taka með sér.

„Við höfum verið að hamra á því og segja sjálfum okkur það í lengri tíma að getan býr í liðinu. Eins og ég sagði við þig eftir fyrsta leikinn þá erum við að taka þessi stuttu skref og eina tröppu í einu. Lið Serbíu er ekki eins sterkt og lið Króatíu en þetta er villtara lið og það gerir þá hættulegri. En nú spilar sú óvissa inn í að um er að ræða úrslitaleik um að fara áfram og með því kemur önnur pressa. Ef maður tapar þá gæti maður verið á leið heim en ef maður vinnur þá bætist við vika í viðbót. Það er það skemmtilega í þessu.“

„Fyrir okkur sem lifum og hrærumst í íþróttinni þá er það út af svona leikjum sem við erum í þessu. Maður nær ekki alltaf að spila vel, og við eigum okkar misjöfnu leiki, en þetta eru augnablikin sem maður lifir fyrir í íþróttinni. Að fá að taka þátt í einhverju sem skiptir máli. Nú er hópurinn að vinna úr upplýsingum sem fyrir okkur eru lagðar. Hvað við ætlum að gera og hvernig við ætlum að framkvæma það sem lið. Það er ótrúlega gaman og gefandi. Ég er bæði glaður og feginn að við fáum að taka á svið slíkan leik,“ sagði Guðjón þegar Morgunblaðið ræddi við hann á hóteli landsliðsins í gær.

Sjá allt viðtalið við Guðjón Val og meira um EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert