Við eigum góða möguleika

Patrekur Jóhannesson landsliðsþjálfari Austurríkis.
Patrekur Jóhannesson landsliðsþjálfari Austurríkis. AFP

„Við eigum góða möguleika og ég hef hundrað prósent trú á mínum mönnum,“ segir Patrekur Jóhannesson þjálfari austurríska landsliðsins í handknattleik sem mætir Norðmönnum í síðasta leik sínum í B-riðli á Evrópumótinu í Króatíu í kvöld.

Lærisveinar Patreks hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu. Fyrst gegn Hvít-Rússum og síðan gegn heimsmeisturum Frakka. Með sigri í leiknum gegn Norðmönnum í kvöld komast Austurríkismenn áfram í milliriðil.

„Norðmenn eru með gott lið og góðan þjálfara og fyrir mótið sögðust þeir vilja vinna til verðlauna á mótinu. En við ætlum okkur að vinna og komast áfram og ég tel okkur eiga góða möguleika á því,“ sagði Patrekur á fréttamannafundi í gær.

Frakkar eru efstir í riðlinum með 4 stig, Norðmenn og Hvít-Rússar hafa 2 stig en Austurríkismenn reka lestina með ekkert stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert