Þetta var mjög lúmsk gildra sem ekki allir skilja

Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson mbl.is/Styrmir Kári

„Þessi síðasti leikur var mjög lúmsk gildra sem ekki allir skilja. Og það þýðir eiginlega ekkert að segja mönnum frá henni – öskra um hana á einhverjum töflufundi – því menn verða bara að finna þetta í frumunum sínum og líklega að hafa lent í einhverjum skít áður til að fatta þetta,“ segir Ólafur Stefánsson nú þegar þátttöku Íslands á EM í handbolta í Króatíu er lokið.

Ólafur, sem skoraði 1.570 mörk í 330 landsleikjum á sínum einkar farsæla ferli árin 1992-2013, og er þriðji markahæsti landsliðsmaður heims frá upphafi, segir hugarfar frekar en annað hafa fellt íslenska liðið í fyrradag. Tapið gegn Serbum megi að miklu leyti skrifa á það að aftast í hausnum hafi leikmenn vitað að hugsanlega slyppu þeir áfram þrátt fyrir þriggja marka tap.

„Leikmennirnir vita þetta alveg sjálfir, að auðvitað er ekki hægt að leika sér svona með eldinn og gera ráð fyrir því að einhver annar geri eitthvað fyrir mann. Það er stærsta svekkelsið í þessu. Heilt á litið þá var þetta mjög flottur leikur gegn Svíum, nokkuð stöðugur leikur við Króata þar sem við börðumst með hjartanu, en svo greinilega reynsluleysi eða eins konar gleymska í Serbaleiknum. Maður fær það alltaf í hnakkann að halda að eitthvað komi af sjálfu sér eða að maður fái eitthvað gefins. Maður sá alveg að reynslumenn eins og Guðjón Valur vissu af þessu og stóðu sína plikt, en í heildina gleyma menn sér aðeins,“ segir Ólafur.

„Menn gleyma sér í 20 mínútur og það er alveg nógu stór hluti af þremur leikjum til að kosta þig allt. Það er allt of stór kafli og því fór sem fór,“ bætir hann við.

Sjá allt viðtalið við Ólaf og fleiri sem tjá sig um íslenska landsliðið í handbolta í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert