Cervar til rannsóknar hjá aganefnd

Lino Cervar þarf að hugsa sinn gang.
Lino Cervar þarf að hugsa sinn gang. AFP

Aganefnd Evrópumótsins í handknattleik karla sem nú stendur yfir hefur ákveðið að rannsaka atvik sem átti sér stað undir lok viðureign Króata og Hvít-Rússa á milliriðlakeppni mótsins. Lino Cervar greip þá í einn leikmann hvít-rússneska liðsins þegar sá síðarnefndi átti leið framhjá Cervar á leið í sókn.

Atvikið fangaði ekki athygli dómara eða eftirlitsmanna leiksins en það sást í sjónvarpsupptöku frá leiknum. Auk þess að grípa í leikmanninn þá var Cervar inni á leikvellinum. Staðan í leiknum var 24:23 þegar atvikið átti sér stað og 25 sekúndur til leiksloka. Króatar unnu leikinn, 25:23. 

Jim Gottfridsson, leikmaður sænska landsliðsins, segir að Cervar hafi fálmað í tvígang til sín í viðureign Króata og Svía í riðlakeppninni á mánudagskvöldið. Gottfridsson segir hafa stjakað við Cervar til baka og sent honum kaldar kveðjur eftir þetta gerðist öðru sinni. 

Í yfirlýsingu sem Handknattleikssamband Evrópu gaf út áðan er sagt að atvikið verði rannsakað og hafa þeir sem að því koma tíma til þess að skila inn greinargerð vegna þess fyrir klukkan fjögur í dag.

Atvikið hefur vakið mikla athygli og m.a. hafa danskir, norskir og sænskir fjölmiðlar fjallað mikið um það. Hvort sem er vegna þess eða ekki þá hefur króatíska handknattleikssambandið tilkynnt að blaðamannafundir landsliðsins  í dag, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að Cervar sitji fyrir svörum, verði aðeins opinn króatískum fjölmiðlamönnum. Alla jafna eru blaðamannafundir landsliða opnir öllum fjölmiðlum.

Svipað atvik og varð í gær átti sér stað á HM kvenna í Serbíu fyrir rúmum fjórum árum.  Þá greip Sasa Boskovic  landsliðsþjálfari Serbíu í Linn Sulland leikmann norska landsliðsins sem  var nærri hliðarlínunni í sókn. Atvikið dró ekki dilk á eftir sér. 

Lino Cervar grípur í leikmann Hvít-Rússa.
Lino Cervar grípur í leikmann Hvít-Rússa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert