Eitt magnaðasta augnablik EM til þessa

Rune Dahmke fagnar gegn Danmörku í gær.
Rune Dahmke fagnar gegn Danmörku í gær. AFP

Óhætt er að segja að Þjóðverjinn Rune Dahmke hafi átt ein bestu tilþrif Evrópumótsins í handknattleik sem nú stendur sem hæst í Króatíu.

Þýskaland og Ólympíumeistarar Danmerkur mættust þá í háspennuleik í milliriðli mótsins. Þegar rétt tvær mínútur voru eftir höfðu Danir tveggja marka forskot og gátu nánast innsiglað sigurinn þegar þeir unnu boltann á meðan Þjóðverjar höfðu tekið markvörð sinn af velli.

Danir unnu boltann og reyndu skot yfir allan völlinn. Dahmke var hins vegar fljótur að átta sig, geystist til baka og náði á ótrúlegan hátt að kasta sér inn í vítateiginn og slá boltann frá opnu marki.

Þar að auki skoraði Dahmke í næstu sókn og hélt lífi í vonum Þjóðverja, sem hins vegar töpuðu að lokum með einu marki 26:25. Þessi tilþrif Dahmke má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert