Gagnrýna EHF fyrir falskan fréttaflutning

Guðjón Valur Sigurðsson og Kiril Lazarov heilsast. Þeir spiluðu saman …
Guðjón Valur Sigurðsson og Kiril Lazarov heilsast. Þeir spiluðu saman hjá Barcelona. Ljósmynd/Robert Spasovski

Forráðamenn makedónska landsliðsins í handknattleik eru allt annað en sáttir við Evrópska handknattleikssambandið, EHF, vegna fréttar sem sambandið sendi út í dag.

Á Twitter-síðu EHF var fullyrt að Kiril Lazarov, stærsta stjarna Makedóníu, væri úr leik vegna meiðsla og kæmi ekki meira við sögu á Evrópumótinu sem nú stendur yfir í Króatíu. Forsvarsmenn Makedóníu furða sig á þessu og neita þessum fregnum alfarið.

Danski miðillinn TV2  hafði samband við annan fjölmiðlafulltrúa Makedóníu, sem staðfesti fregnir EHF. Annar fjölmiðlafulltrúi hafði hins vegar samband við TV2 skömmu síðar og bar þær fréttir til baka.

„Ég veit ekki hvaðan EHF hefur fengið þessar upplýsingar og skil ekki af hverju verið er að birta þetta. Kiril er í nánari skoðun í Zagreb og við vitum ekki hvernig ástandið á honum er,“ sagði annar fjölmiðlafulltrúi Makedóníu við TV2.

Færslu EHF má sjá hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert